Ávarp hafnarstjóra
Evrópuþjóðir sem byggja efnahag, öryggi og hagsæld á siglingum búa að alda þekkingu á höfnum, skipum og flutningatækni. Segja má að Íslendingar hafi um miðja 13. öld fengið öðrum þjóðum í hendur samgöngur milli Íslands og umheimsins, því hafi þekking á siglingum takmarkast um aldir við smábáta til strandveiða. Í upphafi 20. aldar með skipan heimastjórnar árið 1904 vænkaðist hagur þjóðarinnar með stórstígum framförum á ýmsum sviðum. Meðal annars var þá ráðist í byggingu hafna, sem um margt var forsenda efnahagslegs sjálfstæðis og er það enn í dag. Framkvæmdir við Gömlu höfnina í Reykjavík á árunum 1913 til 1917 voru í þá daga bæði stórvirki sem framkvæmd og fjárhagslegt verkefni en fáar framkvæmdir hafa haft jafnvíðtæk áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun á Íslandi. Því má segja að þótt hafnasaga á Íslandi sé stutt miðað við langa siglinga- og hafnasögu margra nágrannalanda okkar þá höfum við náð ágætum árangri á einni öld. Það hefur verið einkenni íslenskra hafna að þeim er í senn ætlað að sinna fiskiskipum og flutningaskipum. Í tímans rás hafa þó orðið stórfelldar breytingar í höfnum m.a. með tilfærslu á aflaheimildum og stærri fiski- og flutningaskipum, sem hefur leitt það af sér að færri hafnir gegna jafnmikilvægu hlutverki í atvinnulífi byggða en áður var. Við hafa þó bæst tíðar siglingar farþegaskipa af öllum stærðum, sem nú skipta ferðaþjónustuna og fjárhag marga hafna miklu máli. Þá er það einkenni íslenskra hafna að þær eru verkefni sveitarfélaganna, en án sérstakrar stefnu ríkisins um hlutverk þeirra í samgönguneti þjóðarinnar. Þar erum við ef til vill eftirbátar þjóða sem hafa langa reynslu af siglingum og flutningum.
Þær hafnir sem mynda nú sameignarfélagið Faxaflóahafnir eru í forystuhlutverki íslenskra hafna. Þar er í senn megingátt Íslands á sviði vöruflutninga, öflug iðnaðarhöfn, fiskihöfn, þjónusta við útgerðir og viðkomustaður farþegaskipa. Öll fléttast þessi starfsemi við öflugt athafna- og efnahagslíf, sem hefur í áranna rás þróast í takt við stækkandi skip, nýjar þarfir á landi og vaxand áherslu á aðgát og sífellt skynsamlegri umgengni við náttúruna. Nýr Sundabakki, sem þjóna á næstu kynslóð flutningaskipa er dæmi um þessa þróun, en í umhverfismálum er nærtækast að nefna fyrirætlun og undirbúning varðandi háspennutengingar skipa, ákall til stjórnvalda um að banna svartolíu sem eldsneyti skipa og innleiðingu umhverfis- og öryggistjórnunarkerfis hjá Faxaflóahöfnum. Segja má að hafnir Faxaflóahafna hafi verið í sífelldri þróun en tekist á við sveiflur í efnahag og umfangi. Svo mun eflaust verða um ókomin ár og framundan eru verkefni sem munu styrkja enn frekar stöðu hafnanna. Í Sundahöfn er hafinn undirbúningur að lengingu Skarfabakka yfir í Kleppsbakka með tilheyrandi landfyllingu í Vatnagörðum. Á Grundartanga hefur verið unnið að þróunarverkefnum sem eru til þess fallin að styrkja svæðið verði þau að veruleika. Það er einnig áskorun að styrkja Akraneshöfn sem fiskihöfn og í Gömlu höfninni mun samspil útgerða, þjónustu við skip, ferðaþjónustu og menningar skapa áfram það hafnarlíf sem hugnast bæði atvinnulífinu og almenningi. Mikilvægast er að þróun og framkvæmdir skili öflugum hafnarsvæðum, sem áfram verði þungamiðja fjölbreytts atvinnu- og athafnalífs. Sérhvert skref í þá átt þarf að standast skoðun komandi kynslóða.
Í þessu lokaávarpi mínu í ársskýrslu Faxaflóahafna ber að þakka stjórnum síðustu ára og frábæru samstarfsfólki með hlýjum óskum um velfarnað á komandi árum.
Gísli Gíslason,
hafnarstjóri