Fjárfestingar og framkvæmdir

Fjárfestingar og framkvæmdir á árinu 2019

Skipting fjárfestinga eftir hafnarsvæðum er eftirfarandi:

 

  m.kr. %
Gamla höfnin 300,0 21,4
Sundahöfn 1.040,0 74,3
Grundartangi 20,0 1,4
Akranes 15,0 1,2
Annað 24,0 1,7
Alls: 1.399,0 100
 
  •   Í Gömlu höfninni í Reykjavík hófust framkvæmdir við söluhýsi hafsækinnar ferðaþjónustu við Ægisgarð og lokið var við uppsetningu á nýjum öldubrjóti í Suðurbugt ásamt dýpkun svæðis, nýjum landgöngum og fl. Unnið var að undirbúningi á nýju rafdreifikerfi fyrir Faxagarð.
  •   Í Sundahöfn var lokið við byggingu nýs viðlegubakka utan Klepps, Sundabakka, sem verður meginhafnarbakki fyrir farmstöð Eimskip í Vatnagörðum. Bakkagerð fylgja sporbitar fyrir nýjan gámakrana Eimskip sem tekinn var í notkun haustið 2019 samhliða því að   gengið var frá yfirborði bakka, lýsingu og veitutengingum. Þessum verkum fylgdu ýmsar endurbætur innan farmstöðvarinnar á baksvæði bakkans svo sem yfirborðsfrágangur, rafdreifikerfi, veitur og lýsing svæðis. Framkvæmdir hófust við landfyllingu við Klettagarða og nýtt til þeirrar fyllingar burðarhæft efni sem kemur úr lóð Landsspítalans. Um er að ræða landfyllingu sem verður um 25.000-30.000 m2 með frágegnum sjóvörnum en úr grunninum fæst allt það grjót sem þarf til þess. Lokið var ákveðnum verkáfanga við dýpkun á aðsiglingu og snúningssvæði Vogabakka í Kleppsvík. Verkefninu lýkur á vordögum 2020. Á Grundartanga var unnið að ýmsum smærri undirbúningsverkum við þróun og úthlutun lóða en framkvæmdir bíða þess að hreyfing komist á úthlutanir lóða fyrir starfsemi á svæðinu.
  •   Á Akranesi var unnið að undirbúningi að endurnýjun og lengingu fremsta hluta Aðalhafnargarðs. Í framkvæmdinni felst að setja stálþil utan á fremsta hluta aðalhafnargarðsins og lengja hann um 110 metra þannig að viðlega við þennan hluta garðsins verður um 220 metrar. Framkvæmdaleyfi liggur fyrir en hönnun verkefnisins er unnin á árinu 2019 og 2020. Gert er ráð fyrir að fyrstu framkvæmdir fari af stað á árinu 2020. Meginþungi framkvæmda verður því á árunum 2020 til 2022.
  •  Annað: Unnið var að smíði á nýjum dráttarbáti fyrir Faxaflóahafnir, Magna en sá bátur hefur rúma 80 tonna dráttargetu, en öflugasti bátur hafnarinnar í dag, Haki er með 40 tonna dráttargetu. Greiðslur vegan bátsins voru færðar á skammtímakröfur en eignfærsla átti sér stað í byrjun mars 2020 þegar báturinn var afhentur í Reykjavík.