Skipulags- og lóðamál

Skipulags- og lóðamál

Nokkur skipulagsmál voru til umfjöllunar á árinu 2019. M.a. var unnið að útfærslu á deiliskipulagi svonefnds Línbergsreits í Örfirisey, en afgreiðsla skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar liggur ekki fyrir. Þá var unnið að skipulagningu bráðabirgðaaðstöðu á Miðbakka, en almenningsrými var tekið í notkun þar að vori 2019.

Þá var unnið að skipulagsmálum á Austurbakka þar sem hyllir undir lok framkvæmda austan bakkans m.a. á grundvelli samkomulags Reykjavíkurborgar, Veitna, Cambridge Plaza Hotel Company Ltd. og Húsfélagsins Austurbakka 2 ehf. Unnin var samantekt um áhrif Sundabrautar ef lega hennar verður með smíði brúar innarlega í Elliðaárvogi, en samantektin var gerð með hliðsjón af skýrslu starfshóps Samgönguráðuneytis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um legu Sundabrautar.

Hafinn var undirbúningur að framkvæmdum við hafnarbakka og landgerð í Vatnagörðum en fyrstu skrefin felast í umhverfismati verkefnisins, en að auki hefur samkomulag verið gert við Fóðurblönduna um að taka upp viðræður um innlausn eigna á svæðinu, sem nauðsynlegt er vegna framtíðarskipulags.