Inngangur

Inngangur

Árið 2019 var rekstur Faxaflóahafna almennt í samræmi við áætlanir þó svo að samdráttur hafi orðið í flutningum í lok árs. Tekjuaukning varð af nokkrum þáttum í rekstrinum en þó einkum hafnarþjónustu og skipagjöldum vegna fjölgunar farþegaskipa. Framundir síðustu mánuði ársins voru vöruflutningar í jafnvægi, en síðustu þrjá mánuði ársins var allnokkur samdráttur í flutningum. Framkvæmdir og verkefni á vegum hafnarinnar gengu almennt í samræmi við áætlun, en stærsti áfanginn fólst í verklokum við byggingu nýs hafnarbakka utan Klepps.

Hafnarsvæði Faxaflóahafna eru í sífelldri þróun, en mest er þróunin áberandi í Sundahöfn og Gömlu höfninni. Hafnarsvæðið í Sundahöfn, sem ætlað er að vera áfram megingátt inn- og útflutnings um ókomin ár, hefur þróast til að mæta þörfum landsins fyrir flutninga og mun gera það áfram. Í Gömlu höfninni hefur áfram þróast fjölbreytt starfsemi og höfnin er í senn lifandi fiskihöfn í bland við ferðaþjónustu, þjónustu við skip og menningarstarfsemi. Þróunin á Akranesi og á Grundartanga er hægari. Á Akranesi er í raun varnabarátta að halda höfninni lifandi sem virkri fiskihöfn, en á komandi árum kunna að vera möguleikar á blandaðri starfsemi á hafnarsvæðinu, sem styðji við almenna þjónustu í bænum m.a. í ferðaþjónustu.

Á Grundartanga eru Faxaflóahafnir þátttakandi í Þróunarfélagi Grundartanga, en markmið félagsins er að vinna stefnu um framtíðarstarfsemi á svæðinu á grundvelli nýsköpunar og umhverfisvænna lausna.

Áherslan á umhverfismál er áfram vaxandi, hvort heldur sem verkefnin taka til umhverfisfrágangs svæða, undirbúnings verkefna, aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða móttöku á sorpi. Stærstu verkefnin sem hafa verið undirbúin á þessum vettvangi snúa að uppsetningu háspennutenginga í Sundahöfn, sem fyrsta áfanga í öflugri landtengingum stærri skipa. Á þeim vettvangi er horft til öflugs samstarfs við Veitur, en einnig öflugs stuðnings ríkisins þannig að góður árangur náist í náinni framtíð. Á það hefur verið minnst að Faxaflóahafnir sf. hafa ekki notið opinberra styrkja í rekstri sínum og fjárfestingum, sem flestar innlendar hafnir njóta svo og hafnir í Evrópu. Rekstur og uppbygging innviðafyrirtækis eins og Faxaflóahafnir sf. er því áskorun sem krefst þess að fyrirtækið sé fjárhagslega í stakk búið til þess að sinna mikilvægu hlutverki sínu, án þess þó að samgönguyfirvöld hafi skilgreint hlutverk þess eða tekið tillit til mikilvægi hafna fyrirtækisins.

Eignaraðilar Faxaflóahafna sf. og eignarhlutir þeirra voru í lok desember 2019 eftirfarandi:

Reykjavíkurborg 75,5551%
Akraneskaupstaður 10,7793%
Hvalfjarðarsveit 9,3084%
Borgarbyggð 4,1356%
Skorradalshreppur 0,2216%