Ávarp stjórnarformanns

Í samfélagi sem byggist upp á eyju verður mikilvægi hafnarinnar seint ofmetið. Faxaflóahafnir eru fjölmennur vinnustaður og á svæðum hafnarinnar þrífst fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf. Faxaflóahafnir leggja áherslu á að á öllum starfstöðvum hafnanna er skýr framtíðarsýn sem fylgt er eftir með ábyrgum fjárfestingum.

Lagt hefur verið í miklar fjárfestingar í Sundahöfninni á seinustu árum með nýjum Sundabakka sem mun bæta aðstöðu flutningaskipa í Reykjavík. Þar verða næstu skref í rafvæðingu hafna tekin með nýjum háspennutengingum. Faxaflóahafnir halda þannig áfram að leiða orkuskipti í höfnum á Íslandi og standa jafnfætis fremstu höfnum erlendis.

Þróunarfélag Grundartanga sat ekki auðum höndum á liðnu ári og hefur félagið safnað veglegum styrkjum frá bæði ríki og sveitarfélögum til að þróa verkefni tengd nýtingu á glatvarma og ljóst að þar liggja gríðarleg tækifæri.

Framkvæmdir við ný þjónustuhús fyrir ferðaþjónustu í gömlu höfninni í Reykjavík hófust á seinasta ári og verður þeim lokið á þessu ári.

Rekstur Faxaflóahafna gekk vel á seinasta ári, framkvæmdir voru á áætlun og fjárhagurinn samkvæmt væntingum. Fyrirtækið stóð vel í lok árs með sterka eiginfjárstöðu og vel undirbúið undir þann samdrátt sem gætt hefur á þessu ári vegna COVID faraldursins. Stjórnendur og starfsfólk eiga þakkir skildar og horfum við bjartsýn fram á veginn.