Niðurlag

Niðurlag

Þrátt fyrir að rekstur og afkoma Faxaflóahafna sf. hafi verið ásættanleg árið 2019 þá voru ákveðnar blikur á lofti í lok árs. Þær blikur urðu að verulegum samdrætti í upphafi árs 2020 vegna Covid-19 faraldurs. Það sem komið hefur fyrirtækinu til góða í efnahagshruninu 2008 og yfirstandandi faraldri er að skuldsetning er lítil og einungis framkvæmt fyrir handbært fé. Sem margoft hefur verið nefnt þá njóta Faxaflóahafnir ekki opinberra styrkja til framkvæmda þó svo að höfnin sé eitt mikilvægasta innviðafyrirtæki landsins.

Hafnarsvæði Faxaflóahafna eru í sífelldri þróun og mikilvægt að vel takist til á komandi árum þannig að hafnir fyrirtækisins gegni áfram stóru hlutverki sínu til lengri framtíðar. Á Grundartanga er starfandi þróunarfélag í eigu eigenda Faxaflóahafna sf. sem velt hefur upp og undirbúið ýmsa áhugaverða kosti, sem gæti orðið að veruleika innan fárra ára. í Sundahöfn eru áfram áskoranir um nýtingu lands og uppbyggingu í þágu athafnalífs á höfuðborgarsvæðinu og í Gömlu höfninni eru verkefni sem munu styrkja svæðið. Á Akranesi er varnarbarátta um að halda höfninni sem virkri fiskihöfn en mikilvægt er að fiskvinnsla og útgerð verði áfram einkenni Akraneshafnar og Gömlu hafnarinnar.

Hagfelld þróun Faxaflóahafna í þágu samfélagsins byggir á framsýni og stefnu eigenda, öflugu starfsfólki og stjórn sem leggur metnað í að skila öflugu fyrirtæki fram á veginn til hagsbóta fyrir atvinnu- og athafnalíf á starfssvæðinu. Þrátt fyrir sveiflur í efnahagslífi eru allar forsendur til staðar til þess að Faxaflóahafnir verði áfram öflugt fyrirtæki og hornsteinn í innviðum þjóðarinnar.

Reykjavík, 8. maí 2020

Skúli Helgason og Kristín Soffía Jónsdóttir
formenn stjórnar Faxaflóahafna sf.

Gísli Gíslason,
hafnarstjóri.