Tölfræði
Tölfræði
Helstu tölur varðandi flutninga, afla og skipakomur sýna að vöruflutningar drógust saman árið 2019 og tekjur af vörugjöldum samhliða. Flutningar í tonnum talið jukust um 5,5% og voru alls liðlega 3,8 milljónir tonna. Hægt og bítandi hefur innflutningur aukist og var 2,7 milljónir tonna og útflutningur jókst á milli ára um 3% og var 936,4 þús. tonn. Merkjanleg aukning hefur verið í svonefndum milliflutningum (transit) en það er vara sem flutt er til landsins og út aftur, en einnig er um að ræða vöru sem kemur til Reykjavíkur, en er flutt út á land. Aðallega er þó um að ræða vöru sem fer á milli Evrópu og Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi. Þessir flutningar voru alls 187,7 þús. tonn og jukust um tæp 28%.
Fjöldi gámaeininga (TEU) sem fluttar voru til og frá landinu drógust saman einkum í lok ársins. Heildarfjöldi gámaeininga árið 2019 var 330.292 TEU en var árið 2018 alls 352.313 TEU og samdrátturinn því um 6,7%.
Á árinu 2019 dróst löndun á afla nokkuð saman hjá Faxaflóahöfnum. Eftir sem áður var heildaraflamagn liðlega 76.000 tonn. Einkum hefur uppsjávarfiskur verið að minnka, en léleg og nánast ónýtar loðnuvertíðir síðustu ár hafa þar mest áhrif. Þá er samdráttur í löndun á bolfiski, en þar virðist ráða mestu breytt útgerðarmynstur þar sem togarar millilanda afla nú í auknum mæli í öðrum höfnum vegna aukinnar þjónustu skipafélaga við hafnir á landsbyggðinni.
Á árinu 2019 komu alls 1.378 skip yfir 100 brúttótonn til Faxaflóahafna sf. og er það fækkun um 96 skip á milli ára. Þar af voru komur farþegaskipa 190 og farþegar með þeim um 188.600. Mesta fækkunin er í komum fiskiskipa.
Veruleg aukning hefur orðið á síðustu árum í fjölda brúttótonna m.a. vegna komu stærri skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur. Brúttótonnafjöldi skipa á árinu 2019 var 13,6 milljón tonna og var aukningin frá árinu 2018 um 12,4%.
Þróun varðandi komur skemmtiferðaskipa og farþega er sú sama og undanfarin ár og fjölgar bæði skipakomum og farþegum. Tekjur af skemmtiferðaskipum voru á árinu 2019 um 14,3% af heildar tekjum, en þar á móti er kostnaður af þjónustu og dráttarbátum. Þessar tekjur hafa verið hækkandi sem hlutfall af heildartekjum.
Í lok árs 2019 voru 68 fastráðnir starfsmenn hjá Faxaflóahöfnum sf. Að teknu tilliti til sumarafleysinga og sumarstarfa í Bækistöð eru ársstörf innan fyrirtækisins um 77.
Ástæða er til að færa starfsfólki Faxaflóahafna sf. þakkir fyrir vel unnin störf, framlag þeirra og hlutdeild í prýðilegum árangri árið 2019